Fundargerð

Aðalfundur Tottenham klúbbsins árið 2014 var haldinn fimmtudaginn 29. maí á Ölveri í Reykjavík. Ekki er hægt að segja að fjölmennt hafi verið á fundinum, en þó góðmennt, eins og alltaf þegar Spursarar hittast. Ýmis málefni voru rædd á fundinum og eru þau í helstu dráttum þessi:

Farið var yfir skýrslu stjórnar frá liðnum vetri. Þetta ár var nokkur fækkun á skráðum meðlimum klúbbsins, en árgjaldið greiddu um 250 manns samanborið við 320 í fyrra. Þó voru miklar nýskráningar og því stefnan sett á að ná í þetta fólk á næsta ári.

Starfsemi vetrarins var svipuð og fyrri ár. Farnar voru 2 hópferðir á vegum klúbbsins sem klúbburinn skipulagði frá A-Ö og gat með því móti boðið mun hagstæðari verð á heildarpakkanum heldur en raunin hefði verið hefðu þær verið skipulagðar í samvinnu við ferðaskrifstofur. Seldist upp í báðar hópferðir klúbbsins og komust færri með en vildu. Þar sem viðtökur við þessu fyrirkomulagi voru svona góðar er það markmið stjórnarinnar að bjóða upp á slíkar ferðir á næsta tímabili. Að auki útvegaði klúbburinn meðlimum sínum miða sem eftir því óskuðu en metár var í slíkum útvegunum . Samtals útvegaði klúbburinn 150 miða á tímabilinu að hópferðunum meðtöldum.

Vinna við nýja heimasíðu hófst fyrir rúmu ári og stendur enn. Var hún flutt á nýjan gagnagrunn síðasta haust og er mikil vinna framundan við að bæta síðuna. Á sama tíma og síðan var flutt á nýja gagnagrunninn var henni breytt á þann veg að minna mál verður að halda ýmsum upplýsingum uppfærðum, þar sem þær færast sjálfkrafa inn í stað þess sem var gert handvirkt áður. Sem dæmi eru næstu leikir og staðan í deildinni.

Á síðasta tímabili var settur á laggirnar póstlisti Tottenhamklúbbsins og eru á honum um 300 manns í dag og fjölgar ört á honum. Þeim sem hafa áhuga á að bæta sér á listann er bent á að hafa samband við stjórn klúbbsins.

Reikningar ársins voru lagðir fram og samþykktir með öllum atkvæðum.

Kosning til stjórnar fór fram. Formaður klúbbsins, Birgir Ólafsson var endurkjörinn með öllum atkvæðum.

Engar breytingar urðu á stjórn klúbbsins og mun því sama stjórn sitja áfram.

Ákveðið var á aðalfundinum að hækka árgjald klúbbsins úr 2.300.- í 2.500.-  ,  Starf klúbbsins nk. vetur verður með svipuðum hætti og fyrri ár. Heimasíðan verður áfram starfrækt, en eins og áður kom er verið að vinna í  endurbótum á henni. Blað verður gefið út líkt og fyrri ár. Einnig er spjallborðið ávallt vinsælt og verður vonandi enn öflugra á næsta vetri. Farið verður í 1-2 klúbbferðir á leiki svo framarlega sem næg þátttaka næst.

Ef einhverjar spurningar vakna þá vil ég benda fólki að hafa samband við stjórnina á spurs(hjá)spurs.is.

Birgir Ólafsson, fundaritari.