Nú þegar annað landsleikjahlé leiktímabilsins er gengið í garð, er ekki úr vegi að renna stuttlega yfir tímabilið til þessa og velta vöngum yfir framhaldinu. Ég myndi telja frekar erfitt að meta árangur Spurs hingað til á þessu leiktímabili. Liðið hefur sýnt þrautsegju á köflum en inn á milli hafa komið afar slæmir leikir, sem fylla fáa stuðningsmenn von um betri tíð. Mauricio Pochettino hefur staðið sig vel það sem af er við erfiðar aðstæður, þar sem helst ber að nefna skort á framherjum í formi og skapandi miðjumönnum til að búa til færi.
Spurs eru þessa stundina í 6. sæti deildarinnar með 11 stig, jafnmörg stig og liðið sem er í 4. sæti. Það er á pappír fínn árangur. Raunveruleikinn er hins vegar sá að liðið hefur ekki leikið jafn vel og flestir hefðu líklega gert sér væntingar um þegar Pochettino tók við. Það er aftur á móti eðlileg skýring á þessu. Liðið þarf tíma að innleiða leikstíl Argentínumannsins og við getum ekki búist við að hlutirnir skáni á einni nóttu. Frammistaða liðsins á móti Liverpool og WBA sýnir svo ekki verður um villst að breytingarnar munu taka tíma. Þess fyrir utan hefur liðið ekki beinlínis sýnt sínar bestu hliðar, nema þá gegn QPR og nú síðast gegn Besiktas og Southampton. Síðustu tveir leikir gefa í skyn að hlutirnir séu á uppleið.
Nú verðum við að vona að hópurinn sleppi við meiðsli og leikbönn að mestu leyti, því ekki má vanmeta að dýptin á leikmannahópnum er ekki jafn sterk og á síðustu leiktímabilum. Pochettino mun ná að setja sinn stimpil á liðið fái hann tíma frá félaginu og þolinmæði frá stuðningsmönnunum. Raunsæar væntingar á þessu tímabili eru án efa að ná Evrópusæti í deildinni og fara langt og/eða sigra í bikarkeppni. Það verður spennandi að sjá þróunina á liðinu í vetur undir stjórn þjálfara sem er með langtímamarkmið Tottenham Hotspur að leiðarljósi.
#COYS