Saga klúbbsins

Tottenhamklúbburinn á Íslandi var stofnaður þann 25. september 1995 í Ölveri í Reykjavík, þegar leikur Tottenham og Q.P.R. fór þar fram um kvöldið. Tottenham vann leikinn 3-2 eftir að hafa lent tveimur mörkum undir í leiknum. Þar kom út fyrsta tölublað klúbbsins. Stofnendur klúbbsins voru Ólafur Þór Jóelsson og Frosti Viðar Gunnarsson. Fljótlega bættust þeir Júlíus Ólafsson og Þorsteinn Daníelsson í hópinn.

Til að byrja með fólst starfsemi klúbbsins aðallega í útgáfu blaðs sem kom út nokkrum sinnum á ári fyrstu árin. Einnig fjölgaði félögum hægt og bítandi. Eftir að Haraldur Jónasson kom í ritnefndina um áramótin 1997-98 komst meiri festa á útgáfuna og blaðið varð efnismeira og fór að kom út átta sinnum á ári, enda þrír sem unnu við blaðið.

Haustið 1998 flutti Ólafur Þór til Danmerkur og hætti þá afskiptum af klúbbnum en Frosti hafði hætt afskiptum af klúbbnum árið 1997. Báðir eru þeir þó áfram meðlimir í klúbbnum. Illa var staðið að skipan næsta formanns sem taka átti við af Ólafi. Það leiddi til þess að lítið gerðist næstu árin annað en blaðið að kom reglulega út þrátt fyrir að stjórn væri vart starfandi. Það var svo í janúar 2001 að nokkrir aðilar úr klúbbnum tóku af skarið og héldu aðalfund. Ný stjórn var kosin og var Haraldur Jónasson kosinn formaður hennar.

Fyrsta verk stjórnar var að gera klúbbinn opinberan stuðningsklúbb Tottenham á Íslandi og gekk það eftir þann 11. júní 2001. Þetta  var afar stórt skref upp á framtíð klúbbsins því með þessari breytingu fær klúbburinn ýmsa fyrirgreiðslu frá Tottenham sem ekki hafði fengist áður. Næsta stóra mál var að skipuleggja ferð til London og þann 15. nóvember 2001 fór stór hópur Spursara út til að sjá leik Tottenham og Arsenal í úrvalsdeildinni, ásamt því að fara í skoðunarferð um völlinn. Fyrr um haustið hafði svo vösk sveit fótboltamanna klúbbsins landað fyrsta bikar klúbbsins með því að sigra Ölversmótið í knattspyrnu. Sumarið 2002 varð heimasíða klúbbsins að veruleika og hún hefur átt stóran þátt í að efla starf klúbbsins enn frekar.

Þann 25. september 2005 fagnaði klúbburinn 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni var efnt til afmælisferðar þann 13. til 16. október 2005 á leik Tottenham og Everton. Í þeirri ferð voru 29 manns sem skemmtu sér konunglega. Meðal annars var leikmaður heiðraður fyrir framistöðu sína á síðasta tímabili og var það Robinson sem hlaut þann heiður.

Á aðalfundi í júlí 2006 ákvað Júlíus Ólafsson að gefa ekki kost á sér áfram í stjórn klúbbsins og hætti þar með að mestu afskiptum af klúbbnum, en hann hafði komið að stjórnun hans með einum eða öðrum hætti frá upphafi. Í stað hans var dóttir hans, Sigrún Ásta Júlíusdóttir, kosin í stjórn klúbbsins fyrst kvenna.

Breytingar urðu á stjórninni  sumarið 2007. Haraldur Jónasson og Áskell Þ. Gíslason hættu í stjórn klúbbsins og var Sigurþór N. Hafsteinsson kosinn formaður klúbbsins. Þeir sem kosnir voru í stjórn í stað þeirra voru þeir Hörður Ágústsson og Birgir Ólafsson. Þá voru gerðar þær breytingar að kosnir voru tveir varamenn í stjórn og voru það þeir Guðmundur Pétursson og Ásgeir F. Jónsson. Stuttu síðar víxluðu Hörður og Guðmundur sætum, Guðmundur kom inn í aðalstjórn klúbbsins og Hörður gerðist varamaður.

Á aðalfundi vorið 2011 var kosinn nýr formaður þegar Sigurþór N. Hafsteinsson sem hafði verið formaður í 4 ár lét af störfum.  Nýr formaður var kosinn Birgir Ólafsson.  Jónas Hjartarson sem hafði verið í stjórn klúbbsins í mörg ár lét einnig af störfum.  Guðni Arason og Arnar Hilmarsson komu inn í stjórn klúbbsins í stað þeirra Sigurþórs og Jónasar.   Á aðalfundi vorið 2012 varð svo ein breyting á stjórn klúbbsins að Arnar lét af störfum og var kosinn í hans stað Elías K. Guðmundsson.

Síðan 2011 hefur Birgir Ólafsson verið formaður klúbbsins og Guðmundur Pétursson verið gjaldkeri og meðstjórnendur hafa verið 5-7 á hverju ári.