Tottenham áfram í undanúrslitin

0
327
Roman Pavlyuchenko

Tottenham tryggði sér sæti í undanúrslitum Carling Cup, í þriðja sinn á jafnmörgum árum, þegar liðið lagði Watford á Vicarage Road á miðvikudagskvöldið. Leiknum lauk með 2-1 sigri Tottenham þar sem Pavlyuchenko og Bent skoruðu mörk Tottenham eftir að liðið hafði lent undir eftir mark frá Priskin.

Harry gerði nokkrar breytingar á liðinu en hélt sig þó við ansi sterkt lið. Í marki var Gomes sem fyrr og í vörninni léku þeir Corluka, Dawson, Woodgate og Ekotto. Á miðjunni spiluðu þeir Lennon, Jenas, Zokora og O´Hara og frammi þeir Pavlyuchenko og Campbell. Á bekknum sátu þeir Cesar, Gunter, Bale, Bentley, Huddlestone, Boateng og Bent.
     Á köldu miðvikudagskvöldi á velli sem var ekki upp á sitt besta voru það heimamenn sem byrjuðu leikinn af meiri ákafa. Campbell gerði þó tilraun til stoðsendingar þegar hann gaf boltann á Zokora en sending Campbells var ekki nógu nákvæm og Zokora náði ekki til boltans. En eftir aðeins 12 mínútna leik náðu heimamenn að skora fyrsta mark leiksins. Smith tók á sprett upp vinstri kantinn og gaf fyrir markið á Priskin. Hann tók við boltanum með bakið í markið, sneri sér við og skaut boltanum í netið framhjá Gomes. Staðan því orðin 1-0 fyrir Watford. Þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum sendi Zokora boltann á Lennon sem tók á sprett upp hægri kantinn, lék svo inn í átt að vítateignum og skaut góðu skoti að marki. Loach í markinu náði þó með ólíkindum að verja boltann. Gomes þurftu stuttu síðar að taka á honum stóra sínum en hann var öruggur í markinu og varði vel skot frá Bridcutt. Leikmenn Tottenham náðu hægt og rólega yfirhöndinni í leiknum og voru mun betri á köflum en inn vildi boltinn ekki. Lennon, Campbell og Pavlyuchenko voru stöðugt ógnandi í framlínunni en heppnin virtist ekki vera með þeim í liði. Þegar tvær mínútur voru til leikhlés fékk Pavlyuchenko gott færi frá vinstri helmingi vítateigsins, hann reyndi skot í fjær hornið en boltinn hafnaði í þverslánni. Það var svo í uppbótartíma að Jenkins braut á Jenas í vítateignum og Dowd, dómari leiksins, var ekki í vafa og dæmdi vítaspyrnu. Pavlyuchenko steig á vítapunktinn og skoraði örugglega framhjá Loach í markinu. Staðan í hálfleik var því jöfn, 1-1.
     Bæði liðin ætluðu sér sigur í leiknum og komu því ákveðin til leiks í síðari hálfleik. Leikmönnum Watford tókst þó ekki að valda miklum usla fyrir framan mark Tottenham og Gomes var öruggur í markinu. Þegar 65 mínútur voru búnar af leiknum gerði Harry sína fyrstu og einu skiptingu í leiknum. Campbell fór af velli og inná í hans stað kom Darren Bent. Zokora, Jenas og O´Hara reyndur af krafti að koma boltanum á sóknarmennina inni í teig en Loach átti stórleik í marki Watford og var vel vakandi fyrir þessum fyrirgjöfum. Litlu munaði að leikmenn Tottenham næðu að skora eftir fyrirgjöf frá Ekotto en boltinn rúllaði þvert yfir markið án þess að neinn næði að pota boltanum inn. Einnig var skalli frá Woodgate varinn á marklínu stuttu síðar. Þegar korter var eftir af leiktímanum tókst Bent loks að koma Tottenham yfir í leiknum. Lennon gaf boltann á Pavlyuchenko á miðjum vallarhelmingi Watford manna. Boltinn barst svo til Bent með viðkomu í Bridcott. Bent var vel staðsettur hægra megin í vítateignum og skoraði af örygggi framhjá Loach í markinu. Bent fékk svo gott færi til að bæta við öðru markin en tókst ekki að stýra boltanum inn í markið. Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og Tottenham er því komið í undanúrslit deildarbikarsins í þriðja sinn á jafnmörgum árum og eiga titil að verja frá síðasta ári. Það kemur svo í ljós í hádeginu á laugardaginn hverjir mótherjar liðsins verða í undanúrslitunum en þau lið sem eftir eru í pottinum ásamt Tottenham eru Burnley, Derby og Manchester United.

Lið Spurs: Gomes, Corluka, Dawson, Woodgate, Ekotto, Lennon, Jenas, Zokora, O´Hara, Campbell (Bent), Pavlyuchenko. Ónotaðir varamenn: Cesar, Bale, Gunter, Bentley, Huddlestone og Boateng.

DEILA
Fyrri fréttDregið í FA cup
Næsta fréttDregið í Carling Cup