Lög

1. gr.

Klúbburinn heitir Opinberi Tottenham klúbburinn á Íslandi.  Heimili hans er í Reykjavík. Markmið hans er að vera vettvangur áhangenda enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur á Íslandi. Þessu markmiði verður náð með útgáfustarfi og þátttöku í uppákomum þar sem klúbbmeðlimir geta hist og spjallað og staðið fyrir uppákomum.

2. gr.

Skilyrði fyrir inngöngu í félagið er að viðkomandi styðji Tottenham Hotspur. Óski einhver eftir inngöngu í félagið tilkynnir hann það ritara stjórnar. Eftir að hafa greitt árgjald er hann fullgildur meðlimur. Aðalfundur ákveður árgjald.

3. gr.

Reikningsár félagsins er frá 1. júní til 31. maí.

4. gr.

Árlegan aðalfund skal halda í síðasta lagi 31.maí. Boða skal til hans með 2ja vikna fyrirvara á heimasíðu klúbbsins, með e-maili á póstlista klúbbsins ásamt auglýsa á Facebook síðu Tottenham á Íslandi. Á aðalfundi skal fjalla um skýrslu fráfarandi stjórnar fyrir liðið rekstrarár og kjósa nýja stjórn sem starfar í eitt ár frá 1. júní. Einnig skal fjalla um lagabreytingar og önnur mál. Fimm skal kjósa í stjórn og skipta þeir með sér verkum ritara, gjaldkera og tveggja meðstjórnenda á fyrsta stjórnarfundinum nema formaðurinn sem aðalfundur kýs. Allir stjórnarmenn verða að vera félagar í “Spurs members club” í London. Einnig skal kjósa 4-7 varamenn í stjórn. Klúbburinn greiðir félagsgjöld stjórnarmanna í klúbbnum úti. Hætti stjórnarmaður, hefur klúbburinn ekki endurkröfu á greitt félagsgjald í klúbbnum úti.

Á fyrsta aðalfundi félagsins skal samþykkja lög og reglur félagsins. Stjórnarfundi skal halda með mest tveggja mánaða millibili. Félagsfundi skal halda þegar þurfa þykir eða ef 20% félagsmanna krefst þess skriflega. Hreinan meirihluta atkvæða á aðalfundi þarf til að breyta lögum félagsins.

5. gr.

Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni. Stjórnarmenn mega ekki þiggja laun fyrir störf sín fyrir félagið. Stofna skal sérstakan bankareikning fyrir félagið. Ekki má taka út af reikningnum nema tveir stjórnarmenn skrifi undir.

6. gr.

Móðurfélagið í Englandi er ekki ábyrgt fyrir rekstri klúbbsins á Íslandi eða meðlimum þess. Félagsmenn skulu ávallt vera klúbbnum, Tottenham Hotspur FC og sjálfum sér til sóma í leik og starfi. Brjóti félagsmaður lög félagsins eða greiði ekki félagsgjöld getur stjórnin vikið viðkomandi úr félaginu.

7. gr.

Tvo þriðju hluta atkvæða allra félagsmanna þarf til að leggja félagið niður. Verði félagið lagt niður skulu eignir félagsins renna til knattspyrnuskóla KSÍ til eflingar unglingastarfi þess.

Samþykkt á aðalfundi 25. janúar 2001, með síðari breytingum.