Þó útlitið hjá aðalliði Tottenham hafi oft verið bjartara má segja að framtíðin sé björt hjá félaginu. Þann 24. janúar hóf U-18 ára lið Tottenham keppni í Chivas bikarnum sem er vaxandi alþjóðlegt mót sem haldið var í Mexíkó í 16. skipti. Í ár voru skráð til keppni mörg af sterkustu unglingaliðum heims, sem dæmi má nefna Real Madrid, Stabæk, River Plate, Santos og Chivas, auk þess sem U-18 ára landslið Brasilíu, Mexíkó, Paragvæ og Japan voru skráð til keppni. Það er allt gert til að gera mótið sem glæsilegast og spila liðin á bestu leikvöngum sem völ er á og aðstaða liða er til fyrirmyndar.
Tottenham var þess heiðurs aðnjótandi að fá að spila opnunarleik mótsins gegn gestgjöfunum í Chivas. Fyrirfram var búist við erfiðum leik þar sem margir höfðu spáð heimaliðinu sigri í mótinu. Strákarnir okkar sýndu hinsvegar agaðan varnarleik gegn sókndjörfu liði Chivas og náðu 2-0 sigri, þar sem Ryan Mason skoraði bæði mörk Tottenham í fyrri hálfleik. Næsti leikur strákana var gegn liði Caracas frá Venesúela. Strákarnir stóðu sig og áttu sigur skilið, þar sem þeir skutu tvisvar í tréverkið og áttu að fá vítaspyrnu þegar Mason var felldur í vítateig andstæðinganna. Lokatölur urðu hinsvegar 0-0 jafntefli. Daginn eftir mættum við meisturunum frá Chile Club Deportivo Universidad Catolica. Leikurinn fór fram í yfir 30 gráðu hita og fundu leikmenn Tottenham virkilega fyrir hitanum í þessum leik. Strákarnir létu það þó ekki á sig fá og sigruðu þá 1-0 í erfiðum leik. Það var Ryan Mason sem skoraði markið, sitt þriðja í keppninni. Alex Inglethorpe þjálfari U-18 ára liðs Tottenham var hæst ánægður með leik sinna manna og sagði spilamennskuna vera í hæsta gæðaflokki. Næsti leikur var gegn Norðmönnunum í Stabæk. Strákarnir okkar settu tóninn strax í upphafi leiks þegar Obika skoraði fyrsta mark leiksins. Staðan var 1-0 í hálfleik, en strákarnir okkar hefðu hæglega getað verið 3 mörkum yfir. Ryan Mason skoraði svo gullfallegt mark beint úr aukaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks og kom okkar mönnum í 2-0, hans 4 mark í keppninni. Yuri Berchiche var næstur á blað þegar hann kom Tottenham í 3-0 með fallegu skoti utan af velli. Það var svo Harry Kane, leikmaður U-16 ára liðs Tottenham sem skoraði næsta mark eftir undirbúning M‘poku. Staðan því orðin 4-0. Leikmenn Tottenham voru ekkert á þeim buxunum að fara taka því rólega og héldu uppi pressu á Stabæk. Það var svo Adam Smith sem kom með rúsínuna í pylsuendanum þegar hann skoraði frábært mark af um 30 metra færi. Lokatölurnar því 5-0, og Tottenham eina liðið í keppninni sem hafði ekki fengið á sig mark.
Næsti leikur var síðasti leikur riðlakeppninnar og skar úr um það hvort við kæmust í áttaliða úrslit keppninnar. Reyndar hefðum við þurft að tapa stórt fyrir liði Cruz Azul til að detta úr keppni. Piltarnir okkar voru þó ekkert að slá slöku við. Þeir stjórnuðu leiknum frá upphafsmínútunum en höfðu ekki erindi sem erfiði í fyrri hálfleik og hálfleikstölur því 0-0. Yaser Kasim opnaði markareikning Tottenham í leiknum með góðu marki í upphafi síðari hálfleiks. Harry Kane skoraði svo annað mark leiksins þegar hann gabbaði markmann Azul úr skónum og þrumaði boltanum upp í markhornið. Lokatölur því 2-0 og Tottenham var komið áfram í fjórðungsúrslit, með besta árangur allra liða og enn áttum við eftir að fá á okkur mark. Við vorum einnig eina liðið utan Ameríku til að komast svo langt. Í áttaliðaúrslitum mættum við svo heimaliðinu Morelia. Strákarnir höfðu lent 1-0 undir í leiknum, og fengum þar með á sig fyrsta mark keppninnar. Um miðjan síðari hálfleikinn náðu þeir að jafna eftir að Ryan Mason hafði skotið í slánna af 30 metra færi og Obika náði frákastinu og skoraði. Leikurinn var allan tímann í járnum og eftir að leiktíma lauk var staðan ennþá 1-1. Þá var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Oscar Janson markvörður fór á kostum og varði tvær vítaspyrnur. Strákarnir skoruðu úr öllum sínum spyrnum og endaði því leikurinn 4-2 fyrir piltunum okkar, sem voru komnir í undanúrslit keppninnar.
Í undanúrslitum mættum við mexíkóska liðinu Atlas. Leikurinn var jafn og spennandi. Inglethorpe þjálfari liðsins var hinsvegar vonsvikinn með dómarann þegar 10 mínútur eftir af leiknum. Yuri Berchiche var þá vísað af velli fyrir litlar sakir að mati Inglethorpe. Einum færri fengu strákarnir mark á sig á lokamínútum leiksins og loka tölur því 1-0 fyrir Atlas.
Í umspilinu um þriðja sætið lentu þeir á móti gestgjöfunum í Chivas, sem þeir unnu örugglega í opnunarleiknum. Þessi leikur var þó mun jafnari. Harry Kane var á skotskónum og skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik. Chivas náðu að jafna leikinn, en í síðari hálfleik komust piltarnir aftur yfir með marki Jon Obika. Allt leit út fyrir að leikurinn myndi enda 2-1 þar til Chivas náðu að jafna eftir tveggja mínútna viðbótartíma. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni og eins og gegn Morelia unnu strákarnir vítakeppnina 4-2 og tóku því við bronsinu.
Inglethorpe kvaðst eftir keppnina vera í skýjunum yfir spilamennsku og fagmennsku leikmanna sinna og sagði þá hafa stigið upp í keppninni og spilað frábærlega við erfiðar aðstæður.
EKG
[…] í keppni um Chivas bikarinn. Nánar má lesa um þá keppni Hér […]
Comments are closed.