Fundargerð

Aðalfundur Tottenham klúbbsins árið 2011 var haldinn fimmtudaginn 26. maí á Ölveri í Reykjavík. Ekki er hægt að segja að fjölmennt hafi verið á fundinum, en þó góðmennt, eins og alltaf þegar Spursarar hittast. Ýmis málefni voru rædd á fundinum og eru þau í helstu dráttum þessi:

Farið var yfir skýrslu stjórnar frá liðnum vetri en til gamans má geta að í ár eru liðin 10 ár síðan klúbburinn var gerður að opinberum stuðningsmannaklúbbi Tottenham. Íslenski klúbburinn er þó aðeins eldri, eða 16 ára. Einnig má minnast á það að í ár eru liðin 40 ár síðan Tottenham spilaði við Keflavík hér á landi í Evrópukeppni félagsliða.

Í klúbbnum hér á landi eru um 250 skráðir meðlimir, sem er svipaður fjöldi og fyrri ár, en þegar mest hefur verið í klúbbnum voru um 320 meðlimir. Starfsemi vetrarins var nokkuð meiri en á síðasta ári og munar þar um tvær ferðir sem farnar voru á vegum klúbbsins og voru þær báðar mjög vel heppnaðar. Einnig hefur þeim fjölgað sem farið hafa á eigin vegum og endurspeglast það í mun meiri veltu í miðasölunni heldur en fyrri ár. Á árinu var gefið út blað líkt og fyrri ár og fylgdi því gjöf til meðlima, músamotta. Breiðablik hafði samband við klúbbinn vegna Knattspyrnuskóla þeirra sem haldinn verður í sumar. Rætt var um samstarf við að fá gamla kempu úr Tottenham til landsins en það gekk ekki upp þar sem tíminn var of knappur.

 

Reikningar ársins voru lagðir fram og samþykktir með öllum atkvæðum. 

Kosning til stjórnar fór fram. Sigurþór Hafsteinsson, formaður klúbbsins, ákvað að láta af störfum og því var nýr formaður kosinn. Birgir Ólafsson var einn í framboði og kosinn með öllum atkvæðum. Jónas Hjartarson, meðstjórnandi, lét einnig af störfum og því voru tveir nýjir meðlimir kosnir í stjórn klúbbsins. Sigrún Júlíusdóttir, ritari, og Guðmundur Pétursson, gjaldkeri, buðu sig áfram fram og voru auk þeirra þeir Guðni Arason og Arnar Hilmarsson í framboði. Voru þau öll kosin með lófataki. Varamenn síðasta ár buðu sig fram að nýju og sitja áfram, þeir Aðalsteinn Hauksson og Ármann Markússon.

Lagt var til að gerð væri lagabreyting á lögum klúbbsins. Í fyrra var gerð breyting þar sem rekstrarárinu var breytt úr 1.júlí – 30.júní  í 1.júní – 31.maí vegna krafa frá Tottenham klúbbnum úti. Við þá breytingu gleymdist að breyta orðalagi í lögum félagsins, en þar stendur núna að ný stjórn starfar frá 1.ágúst. Lagt var til að því verði breytt í 1.júní og var sú breyting samþykkt af fundinum

Starf klúbbsins nk. vetur verður með svipuðum hætti og fyrri ár. Heimasíðan verður áfram starfrækt og blað verður gefið út líkt og fyrri ár. Einnig er spjallborðið ávallt vinsælt. Farið verður í 1-2 klúbbferðir á leiki svo framarlega sem næg þátttaka næst. Ákveðið var að halda félagsgjaldi óbreyttu.

Ef einhverjar spurningar vakna þá vil ég benda fólki að hafa samband við stjórnina á spurs(hjá)spurs.is

Sigrún Ásta, fundaritari.