Biðin heldur áfram

0
683

Bið Tottenham eftir sigri á Stamford Brigde heldur áfram en leikur liðanna í kvöld endaði með 3-0 sigri heimamanna. Sigur Chelsea var aldrei í hættu eftir að þeir skoruðu fyrsta markið en fram að því hafði leikurinn verið frekar jafn og Tottenham átt betri færi, m.a. átti Harry Kane skalla í slánna. Kane var enn og aftur besti maður Spurs í leiknum og hefur frammistaða hans fyrir framan Roy Hodgson landsliðsþjálfara vakið athygli. Kane leiddi sókn Spurs einn í þessum leik en Roberto Soldado hóf leikinn á varamannbekknum þrátt fyrir frammistöðu gegn Everton.

Spurs léku góðan fótbolta á köflum án þess að skapa sér of mörg góð færi. Chelsea áttu betri færi en þau komu nær undantekningalaust eftir klaufaskap í vörn Spurs frekar en eftir frábært spil heimamanna. Staðan var 2-0 í hálfleik en mörkin tvö komu með litlu millibili um miðjan hálfleikinn, bæði eftir mistök í vörn Spurs. Vlad Chiriches var veikur hlekkur í stöðu hægri bakvarðar og bíða menn spenntir eftir því að Kyle Walker komi aftur inn í liðið eftir langvarandi meiðsli.

Chelsea bættu þriðja markinu við í seinni hálfleik, eftir að Spurs höfðu átt góðan kafla án þess að skapa sér alvöru marktækifæri. Þó að leikurinn hafi tapast 3-0 er engin ástæða til að hengja haus. Leikið var gegn langbesta liði Englands um þessar mundir á þeirra heimavelli. Næsti leikur er gegn Crystal Palace á WHL á laugardag og er full ástæða til að vænta góðrar frammistöðu og þriggja stiga þar. Leikur liðsins fer hægt batnandi og er mikill munur á líkamstjáningu leikmanna nú miðað við lok síðasta tímabils þegar Tim Sherwood var löngu búinn að missa traust leikmannanna. Þessi hópur vill spila fyrir þjálfarann og hef ég fulla trú á liðið bæti sig jafnt og þétt þegar líður á leiktíðina. #COYS

Lið Spurs: Lloris, Vlad, Fazio, Vertonghen, Davies; Mason(Paulinho), Bentaleb; Lennon(Chadli), Eriksen, Lamela(Soldado); Kane