Tottenham gerði 0-0 jafntefli við Crystal Palace á White Hart Lane í dag í leik þar sem frammistaða Spurs var langt frá því sem getur talist ásættanlegt á heimavelli gegn liði sem á að sigra. Hugo Lloris var enn eina ferðina maður leiksins og átti nokkrar frábærar markvörslur sem héldu Spurs inni í leiknum. Tvær breytingar voru á byrjunarliðinu frá síðasta leik, Soldado og Dier komu inn fyrir Lennon og Chiriches. Eftir leikinn talaði Pochettino um að leikmenn hefði vantað ferskleika í leiknum, enda liðið að leika 3 leikinn á 6 dögum.
Marktækifæri voru ekki mörg í leiknum og þau bestu féllu í skaut Palace, en Lloris kom í veg fyrir að þeir tæku 3 stig með sér til baka á Selhurst Park. Mikið mun mæða á liðinu áfram en framundan er leikur í Evrópu á fimmtudag og síðan deildarleikur á sunnudag með deildabikarleik í framhaldinu á miðvikudaginn eftir það. Ef liðið ætlar sér að ná góðum úrslitum úr þessu stífa prógrammi sem framundan er, þarf þjálfarinn að halda vel á spöðunum og hvíla leikmenn reglulega. Annars er virkileg hætta á því að lykilmenn verði útbrunnir fyrir jólavertíðina sem er þétt sem endranær.
Leikurinn í dag var vissulega vonbrigði fyrir stuðningsmenn Spurs, en liðið var litlaust og augljóslega örlítið þreytt eftir erfiða viku. Nú hafa menn tækifæri til að kasta mæðunni og safna kröftum fyrir komandi átök. Jólavertíðin mun segja okkur ýmislegt um þennan leikmannahóp og um Pochettino sem þjálfara. Þó að starf hans sé ekki í hættu er krafa frá stuðningsmönnum að liðið fari að sýna hvað í þeim býr sem fyrst. #COYS
Liðið: Lloris; Dier, Fazio, Verthonghen, Davies; Bentaleb, Mason(Paulinho); Eriksen, Kane, Lamela(Chadli); Soldado(Lennon)