Tottenham tapaði fimmta leik sínum á tímabilinu þegar þeir tóku á móti Hull á White Hart Lane og eru enn á botni deildarinnar með 2 stig. Liðið hefur einungis gert jafntefli í tveimur leikjum á tímabilinu og tapað 5 og því er þetta versta byrjun liðsins í 96 ár. Leiknum gegn Hull lauk með 1-0 sigri gestanna og var það Geovanni sem skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu.
Enn á ný hélt Ramos sig við það að gera breytingar á liðinu líkt og í síðustu leikjum. Í marki lék Gomes og vörnin fyrir framan hann var skipuð þeim Gunter, Corluka, Woodgate og Bale. Á miðjunni léku þeir Lennon, Jenas, Zokora, Modric og Campbell og frammi spilaði Pavlyuchenko. Á bekknum sátu þeir Cesar, Dawson, Ekotto, O´Hara, Bentley, Bent og Giovani.
Leikmenn Tottenham komu ákveðnir til leiks og átti tvö færi í upphafi leiks, frá Bale og Pavlyuchenko, en hvorugum tókst að koma boltanum framhjá Myhill í marki Hull. Geovanni átti skot yfir mark Spurs á hinum enda vallarins stuttu síðar en á 9.mínútu tókst honum að koma boltanum í netið. Hull fékk aukaspyrnu fyrir utan teiginn vinstra megin á vellinum og Geovanni skaut beint að marki og smellhitti boltann í bláhornið hægra megin við Gomes og átti Gomes ekki möguleika að verja boltann. Staðan því orðin 1-0 fyrir gestina. Markið var visst áfall fyrir leikmenn Tottenham enda lítið liðið á leikinn en leikmennirnir neituðu þó að gefast upp. Campbell átti skot í hliðarnetið eftir snögga aukaspyrnu frá Jenas á 15.mínútu og 7 mínútum síðar átti Bale þrumuskot að marki úr aukaspyrnu langt fyrir utan teiginn hægra megin á vellinum en markmaður Hull náði að verja boltann glæsilega í þverslánna og þaðan fór boltinn yfir markið. Fyrrum leikmaður Spurs, Dean Marney, var ekki langt frá því að bæta við marki fyrir Hull en skot hans hafnaði í stönginni. Ramos neyddist til að gera sína fyrstu breytingu á liðinu á 35.mínútu þegar Pavlyuchenko fór meiddur af velli og inná í hans stað kom Bent. Marlon King átti svo skot að marki fyrir Hull á 39.mínútu en Spurs átti gott færi til að jafna leikinn þegar 2 mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Lennon sendi boltann fyrir markið á Woodgate sem skaut að marki en boltinn fór í varnarmann Hull og þaðan í stöngina og því var staðan 1-0 í hálfleik, Hull í vil.
Leikmenn Spurs héldu áfram að pressa að marki Hull í síðari hálfleik enda nauðsynlegt fyrir liðið að fá stig út úr leiknum þar sem liðið situr sem fastast á botni deildarinnar. Besta færi Tottenham til að jafna í síðari hálfleik fékk Bent þegar Modric gaf stungusendingu inn á hann og hann var mættur einn á móti markverði Hull hægra megin í markteignum en skot hann fór millimetrum framhjá stönginni. Leikmenn Tottenham fengu þó fleiri færi, Campbell átti skalla rétt yfir markið, Bent fékk ágætisfæri en góð varnarvinna Hull manna kom í veg fyrir að boltinn færi inn og Modric var svo í góðu skotfæri á fjærstönginni þegar Campbell sendi fyrirgjöf á fjærstöngina en hann hitti boltann ekki nógu vel og skotið fór yfir markið. Ramos gerði tvær skiptingar í seinni hálfleik, Bentley kom inná í stað Gunter á 55.mín og Giovani í stað Lennon á 74.mín. Síðasta tækifæri leiksins fékk svo Bale úr aukaspyrnu á lokamínútunni en skot hans fór rétt yfir. Leiknum lauk því með 1-0 sigri Hull og situr því Tottenham enn í botnsæti deildarinnar og ekkert virðist ganga upp hjá liðinu.
Lið Spurs: Gomes, Gunter (Bentley), Corluka, Woodgate, Bale, Lennon(Giovani), Jenas, Zokora, Modric, Campbell, Pavlyuchenko (Bent). Ónotaðir varamenn: Cesera, Dawson, Ekotto, O´Hara.
                





