Enn eitt tapið á útivelli

0
533

Leikmenn Tottenham fóru tómhentir heim þegar þeir heimsóttu Bolton á Reebok völlinn í 24.umferð deildarinnar. Bæði liðin voru með 24 stig fyrir umferðina og sátu í 13. og 14. sæti deildarinnar. Tottenham hefur ekki sótt mörg stig á heimavöll Bolton síðustu ár og leikurinn í dag var engin undantekning. Leikmenn Bolton fóru með sigur af hólmi 3-2, þar sem Puygrenier og Kevin Davies (2) skoruðu mörk Bolton en Darren Bent skoraði bæði mörk Tottenham. Bolton menn komust í 2-0 en leikmenn Tottenham jöfnuðu leikinn með tveimur mörkum á stuttum tíma. En Bolton menn náðu að skora sigurmarkið á síðustu mínútum leiksins og hirða þar með öll stigin þrjú.

 

Harry gerði eina breytingu á liðinu frá því í sigurleiknum gegn Stoke og breytti sömuleiðis um leikskipulag. Jermain Defoe varð fyrir meiðslum í vikunni og er ekki ljóst á þessari stundu hversu alvarleg meiðslin eru. Harry valdi því Wilson Palacios í liðið í staðinn fyrir Defoe og spilaði þá Modric aðeins fyrir framan miðjuna. Liðið var því skipað þannig að Cudicini stóð á milli stanganna og vörnin fyrir framan hann var skipuð þeim Corluka, Dawson, Woodgate og Ekotto. Á miðjunni léku þeir Bentley, Palacios, Zokora og Lennon. Modric spilaði svo fyrir framan miðjuna og Pavlyuchenko einn frammi. Á bekknum sátu þeir Alnwick, Chimbonda, Bale, Jenas, Huddlestone, Bent og Campbell.

 

Leikmenn Tottenham virtust mæta mun ákveðnari til leiks og átti Bentley hættulegt skot strax á þriðju mínútu leiksins. Hann skaut að marki af löngu færi en Jaaskelainen náði að verja boltann aftur fyrir endamörk. Nokkrum mínútum seinna fengu leikmenn Bolton hættulegt færi þegar Taylor tók aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og Kevin Davies stökk manna hæstur og skallaði að markinu en boltinn fór nokkuð yfir markið. Á hinum enda vallarins fengu Tottenham einnig aukaspyrnu eftir brot á Bentley. Hann tók spyrnuna sjálfur og gaf fyrir markið þar sem Pavlyuchenko náði smá snertingu við boltann en ekki nóg til að breyta stefnu hans. Boltinn fór framhjá öllu markinu án þess að nokkur leikmaður næði að nýta sér færið og varð því ekkert úr þeirri hornspyrnu. Þegar um korter var liðið af leiknum komst Makukula í gott færi en hitti boltann illa og skaut framhjá. Fimm mínútum síðar komst Davies í annað færi en hann skallaði framhjá markinu. Eftir um 25 mínútna leik fékk Lennon boltann á vinstri kantinum og lék á Grétar Rafn í liði Bolton. Boltinn barst svo til Bentley sem skaut þrumuskoti að markinu en Jaaskelainen náði að verja meistaralega. En eftir hálftíma leik kom fyrsta mark leiksins. Bolton menn fengu aukaspyrnu fyrir utan teig Tottenham manna og tók Mark Davies spyrnuna og kom boltanum fyrir markið þar sem Puygrenier náði að skalla boltann framhjá Cudicini án mikilla vandræða. Staðan því orðin 1-0 fyrir Bolton. Pavlyuchenko og Lennon fengu báðir sæmileg tækifæri til að jafna leikinn í fyrri hálfleik en Jaaskelainen lenti ekki í miklum vandræðum með skot þeirra. Staðan var því 1-0 þegar leikmenn héldu til búningsklefa í hálfleik.

 

Harry gerði strax tvær breytingar á liðinu í hálfleik. Modric fór af velli þar sem hann var nokkuð aumur eftir samstuð við Pavlyuchenko í fyrri hálfleik. Harry vildi einnig breyta um leikkerfi og spila 4-4-2 og kom því Bent inná í stað Modric. Þar að auki kom Jenas inná í stað Zokora. Fyrsta hættulega færi seinni hálfleiks kom á 55. mínútu þegar Makukula komst í ágætis færi en skot hans fór vel yfir markið. Tveimur mínútum síðar gerði Pavlyuchenko vel þegar hann kom sér í ágætis skotstöðu en skot hans rataði beint á Jaaskelainen. Á 64. mínútu sendi Samuel háan bolta inn í teig Tottenham manna og Cahill náði að skalla boltann áfram inn í teiginn. Þar náði Kevin Davies boltanum vinstra megin í teignum og skaut að marki og hafnaði boltinn í netinu. Staðan því orðin 2-0 fyrir heimamenn. Þremur mínútum síðar kaus Harry að gera síðustu breytingu sína á liðinu og vakti það nokkra undrun að hann gerði breytingu á vörninni þegar liðið var tveimur mörkum undir. Corluka fór af velli og Chimbonda kom inná í hans stað í sínum fyrsta leik eftir endurkomu sína til liðsins. Þessi skipting átti þó aldeilis eftir að reynast liðinu til góða. Á 72. mínútu tók Lennon á sprett upp hægri kantinn, gaf svo boltann á Chimbonda sem kom honum fyrir markið þar sem Bent náði að stýra honum í netið framhjá Jaaskelainen. Staðan orðin 2-1 og leikurinn galopinn. Einungis tveimur mínútum síðar var staðan orðin jöfn og var Chimbonda á ný upphafsmaður sóknarinnar. Chimbonda sendi boltann inn í teiginn frá hægri kantinum en varnarmaður Bolton hreinsaði frá. Boltinn barst þó aðeins út í teiginn þar sem Palacios náði honum og skaut að marki. Jaaskelainen varði skotið en Bent náði frákastinu og skoraði af öryggi. Staðan því orðin jöfn 2-2. Á lokamínútum leiksins virtust leikmenn Tottenham mun líklegri til að skora og hirða öll stigin í viðureigninni. Það var því nokkuð áfall þegar leikmenn Bolton náðu að skora þegar einungis fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Taylor tók hornspyrnu fyrir Bolton menn og gaf inn í teiginn þar sem Kevin Davies hoppaði manna hæstur og skallaði í netið, hans annað mark í leiknum. Leikmenn Tottenham reyndu að jafna leikinn en án árangurs. Bolton menn fengu því öll þrjú stigin úr þessari viðureign og róðurinn þyngist hjá leikmönnum Tottenham enda fá stig sem skilja að liðin í neðstu sætunum í deildinni.

 

Lið Spurs: Cudicini, Corluka (Chimbonda), Dawson, Woodgate, Ekotto, Bentley, Zokora (Jenas), Palacios, Lennon, Modric (Bent), Pavlyuchenko. Ónotaðir varamenn: Alnwick, Bale, Huddlestone, Campbell.

 

SAJ