Tap gegn Everton

0
413

Tottenham tapaði sínum fyrsta heimaleik undir stjórn Harry Redknapp þegar Everton kom í heimsókn á White Hart Lane. Aðeins eitt mark skildi liðin að og var það Pienaar sem skoraði markið fyrir gestina.

Nokkrar breytingar voru gerðar á liðinu frá evrópuleiknum gegn NEC Nijmegen en Harry stillti upp nánast sama liðinu og lagði Blackburn viku fyrr, að einni breytingu undanskilinni, Zokora kom inn í stað Jenas sem var meiddur. Liðið var því svo skipað: Gomes stóð í markinu og vörnin var skipuð þeim Corluka, Woodgate, King og Ekotto. Á miðjunni léku þeir Lennon, Huddlestone, Zokora og Bentley og frammi þeir Bent og Pavlyuchenko. Á bekknum sátu þeir Cesar, Bale, Dawson, Gunter, O´Hara, Boateng og Campbell.

 

Leikurinn var mjög jafn frá fyrstu mínútu og hvorugt liðið náði yfirhöndinni í leiknum. Á 9. mínútu fékk Huddlestone færi á að koma Tottenham yfir en boltinn fór framhjá. Þá tók við langur kafli í leiknum þar sem baráttan var að mestu á miðjunni og því lítið um marktækifæri. Það var svo á 34. mínútu að Zokora tók á sprett upp völlinn, gaf á Lennon sem staðsettur var hægra megin í vítateignum en hann hitti boltann mjög illa því skot hans fór langt upp í stúku. Nokkrum mínútum síðar fengu leikmenn Everton gott færi þegar Fellaini átti skot að marki en Gomes náði að pota boltanum frá markinu. Boltinn barst hins vegar aftur til Fellaini sem aftur skaut að marki en í þetta skipti greip Gomes boltann af öryggi. Þegar fjórar mínútur voru til leikhlés fékk Darren Bent dauðafæri. Ekotto gaf boltann inn í teiginn á Pavlyuchenko en boltinn barst svo til Bent sem skaut viðstöðulaust að marki, beint á Howard. Þar hefði hann hugsanlega getað gert betur með því að taka boltann niður og leggja hann fyrir sig en það gerði hann ekki í þetta skiptið. Rétt áður en dómarinn flautaði til leikhlés, fengu leikmenn Everton hættulegt færi. Cahill gaf sendingu inn í teiginn og Saha, sem komið hafði inná í stað Yakubu sem fór meiddur af velli, skallaði boltann í átt að markinu en Gomes varði vel. Markalaust var því í leikhléi.

 

Leikmenn Tottenham byrjuðu betur í síðari hálfleik og átti Ekotto gott skot að marki en boltinn fór rétt yfir markið. En á 51.mínútu komust gestirnir yfir með marki frá Pienaar. Leikmenn Everton fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn og voru fljótir að taka spyrnuna og komu því leikmönnum Tottenham á óvart. Boltanum var spyrnt upp vinstra megin við vítateiginn þar sem Pienaar náði boltanum, skaut að marki og boltinn fór í netið með viðkomu í Corluka. Staðan var því orðin 0-1 fyrir Everton. Leikmenn Tottenham misstu þó ekki móðinn og reyndu hvað þeir gátu til að komast inn í leikinn. Pavlyuchenko var nálægt því að jafna leikinn tveimur mínútum síðar eftir góða fyrirgjöf frá Bentley en skot hans fór yfir markið. Pienaar fékk annað tækifæri gegn Gomes á 60.mínútu en Gomes hafði betur í þetta sinn. Fyrsta skipting Tottenham kom á 62. mínútu þegar Bent fór af velli og Campbell kom inná í hans stað. Aðeins sex mínútum síðar kom næsta skipting, Bale kom inná og Ekotto fór af velli. Þegar korter var eftir af leiknum átti Pavlyuchenko gott skot að marki sem Howard varði meistaralega. Síðasta skiptingin kom svo stuttu síðar, Huddlestone fór af velli og Boateng kom inná í hans stað. En leikmenn Everton vörðust vel þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir leikmanna Tottenham til að jafna leikinn. Leiknum lauk því með sigri Everton og fyrsta tap liðsins undir stjórn Redknapp á White Hart Lane staðreynd. Liðið situr því í 16. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 15 umferðir.

Lið Spurs: Gomes, Corluka, Woodgate, King, Ekotto (Bale), Lennon, Zokora, Huddlestone (Boateng), Bentley, Pavlyuchenko, Bent (Campbell). Ónotaðir varamenn: Cesar, Gunter, Dawson og O´Hara

DEILA
Fyrri fréttSigur gegn Blackburn
Næsta fréttDregið í FA cup