Tottenham áfram í Uefa Cup

0
564

Tottenham tryggði sig áfram í riðlakeppni Uefa Cup þegar þeir mættu Wisla Krakow í Póllandi í síðari leik liðanna. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en það dugði Spurs þar sem þeir unnu fyrri leikinn 2-1 á heimavelli og því samtals 3-2. Wisla Krakow sá þó um að skora bæði mörkin í leiknum á Wisly Stadion þar sem Tottenham komst yfir með sjálfsmarki og jöfnuðu svo leikinn sömuleiðis.

     Það kemur víst fáum á óvart að Ramos hélt áfram að breyta liði sínu. Ramos lagði upp með leikkerfið 4-5-1 líkt og í flestum leikjum tímabilsins. Gomes var líkt og í fyrri leikjum á milli stanganna og hefur hann staðið sig ansi vel frá því að hann gekk til liðsins í sumar. Vörnin var skipuð þeim Gunter, Woodgate, King og Bale. Á miðjunni léku þeir Lennon, Jenas, Zokora, Modric og Campbell og einn frammi í hlutverki framherja lék Bent. Á bekknum sátu þeir Cesar, Dawson, Ekotto, Bentley, Huddlestone, O´Hara og Giovani.

     Bæði lið hófu leikinn af varkárni enda lauk fyrri leiknum aðeins með eins marks sigri Tottenham og því hvorugt liðið í þeirri stöðu að þurfa að skora mörg mörk. Af þeim sökum var ekki mikið um marktækifæri á fyrstu 20 mínútum leiksins. Cantaro, leikmaður Wisla, reyndi þó að koma ágætis bolta inn í teiginn en Gomes var vel vakandi í markinu og náði til boltans fyrstur. Brozek átti svo skot að marki sem Gomes varði einnig vel. Bale átti hættulega fyrirgjöf á hinum enda vallarins en boltinn skilaði sér ekki til samherja. Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks var Gomes þó bjargvættur Tottenham eftir að Radoslaw komst í dauðafæri en Gomes varði í horn. Stuttu síðar fékk Diaz einnig tækifæri til að koma heimamönnum yfir í leiknum en Gomes stóð fyrir sínu sem fyrr. Staðan í hálfleik var því 0-0 og yrði það útkoman kæmist Tottenham áfram í riðlakeppnina. Wisla menn vissu því að þeir yrðu að læða inn marki í síðari hálfleik.

     En það voru leikmenn Tottenham sem komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik. Campbell átti skot rétt yfir markið, fyrirgjöf frá Bale fór rétt framhjá annarri stöng marksins og Modric fékk einnig ágætis færi en markmaður Wisla var vakandi í markinu og varði vel. En á 58. mínútu leiksins kom fyrsta mark leiksins. Bale sendi lága fyrirgjöf af vinstri kantinum fyrir markið og við fyrstu sýn virtist Campbell ná að stýra boltanum í fjærhornið en við nánari athugun var það leikmaður Wisla sem átti lokasnertinguna og markið því skráð sem sjálfsmark. Staðan því orðin 0-1 fyrir gestina og útlitið ekki orðið gott fyrir pólska liðið þar sem þeir þurftu nú nauðsynlega að skora 2 mörk til að knýja fram framlengingu. Stuttu síðar gerði Zokora sig líklegan til að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið. Hann þaut upp völlinn og skaut að marki en skot hans fór þó vel framhjá markinu og hefði líklega verið betra fyrir hann að gefa boltann þar sem Campbell var mun betur staðsettur fyrir framan markið. Á 68.mínútu gerði Ramos sína fyrstu breytingu á liðinu þegar Campbell fór af velli og inná í hans stað kom O´Hara og var hann með þessu móti að þétta miðjuna varnarlega séð. Bent reyndi ágætis skot að marki en það fór rétt framhjá. Leikmenn Wisla áttu fá svör við leik gestanna þrátt fyrir að þurfa nauðsynlega að skora amk 2 mörk. Leikmenn Tottenham virtust hins vegar líklegir til að bæta við marki og á 75.mínútu munaði litlu að fyrirgjöf Lennon frá hægri kantinum næði á kollinn á Bent. Stuttu síðar kom að næstu skiptingu Ramos þegar Modric fór af velli og Huddlestone inná í hans stað. En síðasta korter leiksins náðu Wisla menn að bæta sinn leik og pressa töluvert á mark Tottenham. Gomes varði glæsilega skalla frá Brozek eftir hornspyrnu en á 83.mínútu náðu leikmenn Wisla að koma boltanum framhjá honum í markinu, eða réttara sagt, yfir hann. Brozek fékk langa sendingu fram völlinn og náði til boltans á undan varnarmönnum Tottenham. Gomes var kominn langt út úr marki sínu, að mörkum vítateigsins og Brozek tók því við boltanum viðstöðulaust og vippaði yfir Gomes. Glæsilega gert og staðan því orðin jöfn, 1-1. Heimamenn héldu pressu sinni allt til lokamínútunnar þar sem þeir þurftu nú einungis eitt mark til að knýja fram framlengingu. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka bætt Ramos í vörnina þegar Dawson kom inná í stað Lennon og liðið náði að halda fengnum hlut með góðum varnarleik og glæsilegri markvörslu Gomes.

     Liðið er því komið áfram í riðlakeppnina en dregið verður í riðlana þann 7.október næstkomandi og hefst drátturinn kl.10 að íslenskum tíma. Tottenham verður í potti eitt sem er efsti styrkleikaflokkurinn, en styrkleiki liða er metinn út frá þátttöku liðanna í evrópukeppnum síðastliðin 5 ár.

Lið Spurs: Gomes, Gunter, Woodgate, King, Bale, Lennon (Dawson), Jenas, Zokora, Modric (Huddlestone), Campbell (O´Hara), Bent. Ónotaðir varamenn: Cesar, Ekotto, Bentley, Giovani.