Kane með þrennu í slátrun á Bournemouth

0
568

Tottenham lék í dag á útivelli gegn Bournemouth, leikurinn byrjaði heldur betur hressilega og komust heimamenn yfir þegar það var ekki mínúta liðin af leiknum. Þar var að verki Matt Ritchie, en stórt spurningarmerki var hægt að setja á leikstjórnanda okkar, Christian Eriksen í varnarvinnunni í því marki. Tottenham var sem betur fer ekki lengi að svara kallinu og jafnaði Harry Kane úr vítspyrnu sem hann fiskaði sjálfur eftir mistök hjá markmanni Bournemouth, Artur Boruc, sem átti eftir að reynist mikill happafengur fyrir Spurs í þessum leik. Spurs komst svo yfir skömmu seinna eftir fast leikatriði, þar sem enginn annar en Moussa Dembéle kom knettinum í netmöskvuna. Ótrúlega gaman að sjá að sá fýr er komin í gang aftur. Artur Boruc gaf okkar mönnum þriðja markið á silfurfati þegar hann afhenti Argentínu manninum Erik Lamela boltan sem stýrði honum örugglega í markið. Erik Lamela hefur nú komið að marki hjá Tottenham á 120 mínútna fresti í deildinni. Staðan var því 3-1 þegar flautað var til hálfleiks og Spurs samt varla að spila sinn besta leik.

Seinni hálfleikurinn var síðan mjög auðveldur hjá Spurs, Harry Kane skoraði annað mark sitt eftir stórkostlega fyrirgjöf frá meistara Eriksen og fullkomnaði síðan þrennu sína eftir þriðju gjöfina frá vini okkar Artur Boruc sem er með 100% taphlutafall gegn Spurs í úrvalsdeildinni.

Tottenham voru heilt yfir mjög sterkir í dag og framhaldið er mjög bjart eftir að hafa verið taplausir í síðustu 9 leikjum, eitthvað sem verður að teljast virðingarvert þrátt fyrir að það séu mörg jafntefli. Spurs er einnig að spila á yngsta liðinu í deildinni með menn eins og Dele Alli, Harry Kane og Eric Dier í broddi fylkingar. Við getum verið spenntir stuðningsmenn í dag.

Næsti leikur er gegn Aston Villa á heimavelli, það verður annar heimaleikurinn í röð þar sem að útiliðið er að spila sinn fyrsta leik með nýjum stjóra.