Spurs lögðu Grikkina í Astreas Tripolis í kvöld 5-1 en ekki munu menn muna eftir leiknum vegna úrslitana, né heldur þrennunnar sem Harry Kane skoraði. Erik Lamela stal heldur betur senunni þegar hann skoraði stórkostlegt mark í fyrri hálfleik, með svokölluðu „rabona“ sparki. Upphaflega hélt undirritaður að Lamela hefði spyrnt boltanum með hægri fæti en endursýningar sýndu annað!
Lamela skoraði annað mark í síðari hálfleik til að koma Spurs í 3-0 áður en Harry Kane, sem hafið skorað fyrsta mark leiksins með frábæru skoti af 25m færi, bætti við tveimur mörkum til að koma Spurs í 5-0. Andstæðingarnir voru ekki beint góðir í kvöld, en þó áttu þeir fína spretti og ógnuðu marki Hugo Lloris oftar en einu sinni. Lloris stóð vaktina frábærlega eins og ávallt, þar til skömmu fyrir leikslok þegar hann misreiknaði úthlaup og uppskar rautt spjald. Þrennumaðurin, Harry Kane, tók hanskana en honum tókst því miður ekki að verja lélega aukaspyrnu Tripolis manna og lak boltinn í netið.
Úrslitin 5-1 og margt jákvætt við leik Spurs þó að varnarleikurinn hafi verið vafasamur á köflum. Newcastle bíða á sunnudaginn og verður gaman að sjá hvernig Spurs bakka upp þennan leik, en eins og flestir vita hefur liðið átt erfitt uppdráttar eftir Europa League leiki á þessu ári.
Spurs: Lloris(rautt), Dier, Fazio, Vertonghen, Davies, Townsend(Lennon 83), Capoue, Dembele, Lamela(Eriksen 76), Adebayor(Chadli 76), Kane.